Skráningarskjal Klappa 2017

Ávarp forstjóra

Skráningarskjal

Samþykktir félagsins

Ársreikningar

Ávarp forstjóra

Nú hafa tímamót orðið í samstarfi þjóða í loftslagsmálum þar sem aðildarþjóðir Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hafa skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, efla getu sína til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, grípa til sameiginlegra loftslagsaðgerða og tryggja áreiðanleika og gagnsæi loftslagsupplýsinga.
Samkomulagið var undirritað í París þann 12. desember 2015,  en markmið þess er að halda hlýnun jarðar innan við 2°C. Þessi áskorun á varla sinn líka í sögunni enda er verkefnið risavaxið þar sem mannkynið verður að beita nær allri sinni vísinda- og tækniþekkingu til að ná þeim árangri sem það hefur sett sér með samningnum.
Samningurinn er lagalega bindandi og því verður þeim ríkjum sem ekki ná að uppfylla skuldbindingar sínar gert að kaupa kolefniskvóta til jafns við umframlosun og samhliða þurfa fyrirtæki sem losa umfram úthlutaðan kvóta að gera það sama.
Líklega verður um verulegar fjárhæðir að ræða en gera má ráð fyrir að fyrirtæki starfrækt á Íslandi og íslenska ríkið þurfi að kaupa kolefniskvóta fyrir milljarða og jafnvel tugi milljarða fram til 2030.  Það er því rík ástæða fyrir alla þá sem þurfa að upplýsa um losun sína á gróðurhúsalofttegundum og kaupa kolefniskvóta hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða þjóðríki að fylgjast með losuninni og byggja upp öfluga innviði á sviði umhverfismála þ.á.m. traust og skilvirkt upplýsingarkerfi.

Hugbúnaðarlausnir Klappa er eitt af allra fyrstu upplýsingakerfum sinnar tegundar í heiminum.  Þeim er sérstaklega ætlað að styðja fyrirtæki og ríki við að byggja upp öfluga innviði til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru í umhverfismálum.
Traust og skilvirk aðferðafræði hugbúnaðarins mætir þörf fyrirtækja og ríkja um að safna saman, samkeyra, greina og miðla áreiðanlegum umhverfisupplýsingum í samræmi við umhverfislög. Hugbúnaðurinn mætir til dæmis nú þegar alþjóðlegri umhverfislöggjöf skipa varðandi flesta þætti umhverfismála og einnig mikilvægum þáttum íslenskra og evrópska umhverfislaga hvað varðar söfnun og miðlun á upplýsingum um orkunotkun og upplýsingum um meðferð á úrgangi.
Hugbúnaðurinn er skýjalausn þannig að í kjölfar breytinga á umhverfislögum og reglugerðum þjóðríkja og yfirþjóðlegra stofnana er hugbúnaður hjá öllum viðskiptavinum uppfærður jafnóðum til samræmis við þær breytingar. Þannig geta viðskiptavinir Klappa treyst því að með notkun á hugbúnaði Klappa mæti þeir ávallt öllum þeim flóknu lagalegu kröfum, tengdum upplýsingagjöf og lögfylgni, sem innleiddar verða á komandi árum.

Hryggjarstykkið í hugbúnaðinum er nákvæmni, gagnsæi og áreiðanleiki upplýsinga til að mæta kröfum alþjóðlegra eftirlitsaðila, en það gerir hann að afburða verkfæri til að lækka rekstrarkostnað. Í flestum tilfellum er bein tenging á milli betra vistspors og lægri rekstrarkostnaðar. Betri orkunýtni, minni úrgangur og betri umgengni eru lykilþættir þegar lækka þarf rekstrarkostnað. Auk þess má gera ráð fyrir því að á komandi árum verði kostnaður vegna fjármögnunar fyrirtækja, tryggingargjalda og verðmats fyrirtækja tengt árangri í umhverfismálum.
Fjárfestar, fjármögnunaraðilar og tryggingafélög munu gera ráð fyrir að öll umhirða og umsýsla um eignir fyrirtækja verði annars eðlis og betri ef umhverfismál eru höfð í öndvegi. Allt bendir til að á komandi árum verði umhverfisuppgjör ásamt upplýsingum um félagslega þætti og stjórnarhætti fyrirtækja lögð að jöfnu við rekstraruppgjör fyrirtækja. Nú þegar er álag á fyrirtæki og stofnanir að aukast vegna nýrra laga sem kalla á ítarlegri upplýsingar og aukna tíðni upplýsingagjafar.
Með stöðugri gagnasöfnun og úrvinnslu upplýsinga í hugbúnaði Klappa er dregið verulega úr kostnaði við gagnasöfnun og  upplýsingagjöf auk þess sem áreiðanleiki umhverfisupplýsinga er aukinn.

Þriðja stoðin í hugbúnaðarlausnum Klappa eru öflugar, rafrænar gagnapípur, sem gera skipulagsheildum, hvort sem um fyrirtæki, sveitarfélög eða þjóðríki er að ræða, fært að tengjast með rafrænum hætti þeim rekstrareiningum sem hafa áhrif á vistsporið. Lausnirnar opna aðgang að stöðugu flæði upplýsinga sem gera það mögulegt að greina og bera saman við markmið og miðla umhverfisupplýsingum upp og niður og þvert í gegnum skipulagsheildir.
Með því að geta horft á þennan hátt í gegnum skipulagsheild getur notandi hugbúnaðarins fengið heildstæða yfirsýn yfir mjög flókna og umfangsmikla starfsemi sem ekki hefur verið mögulegt áður. Því til viðbótar getur notandi fengið traustar upplýsingar um áhrif aðkeyptrar þjónustu á vistsporið en með þeirri vitneskju getur ein skipulagsheild haft áhrif á umbætur hjá annarri og lækkað þannig sitt eigið vistspor.

Á komandi árum munum við halda áfram að þróa hugbúnaðinn á þessum grunni og bæta við hann ýmsum mikilvægum þáttum. Má nefna sem dæmi aukna getu til að spá áreiðanlega fyrir um og draga upp mismunandi sviðsmyndir af afleiðingum og áhrifum nýrra áforma sem stuðla að ákvörðunum sem auka frekar sjálfbærni en álagið á náttúruna.
Segja má að lausnir Klappa séu hluti af þeim grænu innviðum sem ný viðhorf og nýjar skuldbindingar þjóða kalla á að verði byggðir en upplýsingabrautir og kerfi eru með mikilvægustu innviðum 21. aldar.

Hugbúnaðarlausnir Klappa eiga fullt erindi inn á alþjóðlega markaði því samskonar verkefni bíða allra fyrirtækja og þjóða heims. Stefna okkar í markaðsmálum er skýr; við viljum byggja upp framúrskarandi umhverfislausnir í samstarfi við fyrirtæki, stjórnvöld og stofnanir á Íslandi áður en við förum á aðra markaði.
Ísland er heimamarkaður Klappa og því lykilatriði að við getum þróað og fengið mikilvæga reynslu af notkun hugbúnaðarlausnanna áður en farið er með þær á fjarlæga markaði. Með markvissum hætti verða einstaka þættir hugbúnaðarins boðnir viðskiptavinum erlendis í samvinnu við íslenska viðskiptavini okkar og samstarfsaðila sem starfa á alþjóðamörkuðum.

Klappir hafa á að skipa starfsmönnum af þremur kynslóðum sem hafa mikla reynslu og einstaka þekkingu á viðfangsefninu. Lausnum okkar og þjónustu hefur verið vel tekið og við eigum að góða og trausta viðskiptavini sem leggja sig fram um að ná framúrskarandi árangri í umhverfismálum.

Á þessum grunni  viljum við hjá Klöppum búa okkur undir framtíðina. Við lítum svo á að með skráningu Klappa á First North markaðinn í Kauphöll Íslands sé stigið mikilvægt skref í þeim undirbúningi. Við teljum að með skráningunni skapist umgjörð sem komi fyrirtækinu til góða hvað varðar ýmsa mikilvæga þætti þegar kemur að uppbyggingu félagsins svo sem almenn og samræmd upplýsingagjöf til hluthafa, aukinn möguleiki fyrir nýja fjárfesta til koma inn í hluthafahópinn og fara út úr fjárfestingunni þegar hentar.
Þá auðveldar skráningin fjármögnun stærri verkefna ef aðstæður kalla á ýmist með útboði á nýju hlutafé eða útgáfu skuldabréfa. Með skráningunni viljum við jafnframt gefa þeim fjárfestum og einstaklingum sem hafa trú á að með grænum innviðum og öflugri upplýsingatækni sé hægt að minnka verulega losun gróðurhúsalofttegunda tækifæri til að vera þátttakendur í þróun og innleiðingu þeirra í gegnum Klappir.

Framtíð Klappa lítur vel út og okkur hlakkar til að takast á við þau margbreytilegu og spennandi verkefni sem framtíðin geymir og vinna áfram með okkar góðu viðskiptavinum, samstarfsaðilum og hluthöfum í að efla getuna til að takast á við loftslagsbreytingar.

 

F.h. stjórnar og starfsmanna Klappa

Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri

Austurstræti 17, 101 Reykjavík

thjonusta@klappir.com

+354 519 3800

© 2017 All rights reserved. Klappir Grænar Lausnir hf